Gott að vera glæpamaður á Íslandi (Sönn saga)

thief_1.jpgÖllum greiðslukortunum mínum var stolið í einkasamkvæmi nýlega. Veskið fannst úti í horni, bara starfsmannaskírteinið mitt var eftir í því. Greinilega gengið hreint til verks og fýsileg kort tekin. Ég uppgötvaði það sem betur fer tímanlega og lét loka þeim.

Samt var debetkortið mitt notað minnst þrisvar eftir það. Óþægileg tilfinning sem fer ekkert svo auðveldlega. Samtals er fjárhagstjónið komið upp í 15 þúsund krónur.

Fljótlega gat ég séð inni í einkabankanum mínum að meðal annars hafði verið greitt með kortinu mínu í leigubíl. Þar var nákvæm tímasetning og meira að segja leyfisnúmer leigubílsins.

Jæja, þarna hugsaði ég mér gott til glóðarinnar. Ég var handviss um að ég væri komin á sporið og gæti nú haft uppi á þrjótnum með einu eða tveimur símtölum þar sem um einkasamkvæmi var að ræða. Ákveðnir aðilar koma til greina, samkvæmt upplýsingum sem eru mjög trúverðugar.

En auðvitað fer maður ekkert að bera svona sakir á borð að óathuguðu máli svo ég hringdi í leigubílastöðina og bað um að fá samband við leigubílstjórann. Ég þurfti bara að fá svar við tveimur spurningum. Hverjir brottfarar- og áfangastaðir hafi verið á þessum tiltekna tíma og persónulýsingu á þeim sem greiddi með kortinu.

Ég var svo vitlaus að vera heiðarleg í símann og segja að þetta væri út af stolnu korti. Ég hefði betur kynnt mig sem farþega sem skuldaði leigubílnum pening.

"Þú verður að kæra þjófnaðinn og svo verður löggan að fá þessar upplýsingar hjá okkur" var svarið sem ég fékk hjá almennilegri konu sem svaraði en hún bætti við:

"Ég er reyndar með þessar upplýsingar hérna fyrir framan mig en hendur mínar eru bundnar. Ég má ekkert segja, löggan verður að biðja um þessar upplýsingar."

Svo ég fór og kærði.
Hringdi og var sagt að koma niður á lögreglustöð. Mætti niður á Hverfisgötu. me_logum_skal_land_byggja.jpg

"Nei þú þarft að fara upp á Rauðarárstíg í fjársvikadeildina og kæra þetta þar." var mér sagt. Ég þangað.

"Nei þú þarft fyrst að fara í bankann og fá útskrift á umræddum kortafærslum og véfengir þar færslurnar. Svo kemurðu hingað og kærir."

OK, frábært. Það er svona assgoti auðvelt að kæra. Þessi prósess tók nú ekki nema tvo tíma eða svo.

Ég kom til baka með öll gögn og lagði fram formlega kæru. Spurði svo lögreglumanninn:

"Jæja, ætlarðu þá ekki að hringja í leigubílstjórann?"

"-Nei, til hvers?" var svarið.

"Nú, mig langar að vita hvort grunur minn er á rökum reistur. Ég væri líka alveg til í að fá gjafakortin mín til baka sem voru líka tekin, svo ekki sé minnst á að láta óþokkann gjalda fyrir glæp sinn." sagði ég.

"Þú getur látið heimilistrygginguna bæta þér gjafakortin"

Ég fattaði svo síðar að það gengur auðvitað aldrei upp. Sjálfsábyrgð þeirrar tryggingar er of há til að bæta það.

"Hvað ef ég vil láta ná þessu hyski og fá gjafakortin til baka? Það hlýtur að vera minn réttur?"

- "Þú þarft ekkert að gera meira, þú ert búin að kæra og færð þess vegna greidda til baka upphæðina sem hefur verið tekin út af kortinu þínu. Það er núna í höndum þeirra sem tóku við greiðslunum að greiða þér til baka og kæra svo misnotanda kortsins" bætti þessi annars geðþekki lögreglumaður við.

Jaaaá. Auðvitað. Kjáni get ég verið.

"Og hvert verður þá næsta skref hjá ykkur?" spurði ég.

"Við sendum núna bréf á leigubílastöðina og þá staði þar sem greitt var með kortinu. Þeir taka ákvörðun um hvort þeir kæra."

"En leigubílastöðin býst við símtali frá þér"

Það skipti lögregluna engu máli.

credit-cards.jpgSvona er þetta þá. Forráðamenn þeirra staða sem taka við greiðslum með stolnum kortum hljóta að eyða einhverjum vikum á hverju ári í þennan prósess að kæra svona þjófa. Ehhh, ég er ekki viss.

Ég var á þessum tímapunkti alveg búin að fá nóg, gat ekki tekið við meira veseni og vildi bara láta þetta gott heita. Skítt með gjafakortin sem ég og maðurinn minn fengum í jólagjöf. Ég fæ þó hitt til baka.

En maðurinn minn er með þráhyggju og var ekki sáttur. Réttlætiskenndinni var ofboðið.

Hann hringdi aftur í leigubílastöðina og gerði aðra tilraun. Sama svar.

"Löggan verður að biðja um þessar upplýsingar"

Fleiri hindranir

En við vorum ekki búin að hlaupa á alla veggina sem hægt er að hlaupa á. Nú tók maðurinn minn upp á því að hringja í kunningja sinn sem keyrir leigubíl fyrir sömu stöð. Nú átti að reyna krókaleiðir.

Kunninginn hringir skömmu síðar til baka með þær upplýsingar að eigandi umrædds leigubílaleyfis vilji ekki koma nálægt þessu máli.

Þar höfum við það.

Glæpamenn ættu að vera bara nokkuð öruggir hérna á Íslandi.

Þarna er komin enn ein leiðin til að brúa bilið í kreppunni. Nú förum við bara og stelum greiðslukortum alveg villt og galið. Kaupum í matinn og svona og annað sem telur í heimilisbókhaldinu. Það er ekki séns að við verðum tekin fyrir það.

Ég meina, eftir allt saman þá er ekki einu sinni hægt að nappa nokkra menn sem drógu að sér mörg þúsund milljarða og settu Ísland á hausinn.

Glæpir borga sig. Það er sönn saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: SteiniGjé..!

Jahérnanahér ... það er bara ekkert annað sem ég get sagt!

SteiniGjé..!, 5.1.2009 kl. 22:43

2 Smámynd: Offari

Þú borgar lögregluni laun. Ég kalla þetta einfaldlega svik á þeirri þjónustu sem við borgum fyrir. Farðu aftur niðrá lögrelustöð og kærðu lögregluna fyrir að taka við greiðslu fyrir þjónustu sem ekki er veitt.  Þetta eru svik við skattgreiðendur.

Offari, 5.1.2009 kl. 22:57

3 Smámynd: Sigríður Þóra Magnúsdóttir

Hvað ætli maður yrði látinn hafa mikið fyrir því að leggja þá kæru inn?

Sigríður Þóra Magnúsdóttir, 5.1.2009 kl. 23:05

4 Smámynd: Linda litla

Kerfið á Íslandi er RUGL.....

Gleðilegt ár til þín...

Linda litla, 6.1.2009 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigríður Þóra Magnúsdóttir
Sigríður Þóra Magnúsdóttir
Ég er ég og verð alltaf .

Nýjustu myndir

  • ...donna_karen
  • ...nna_wintour
  • ...ne_roitfeld
  • ...g_kate_moss
  • ...moss_879728

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband